Um reyklaus.isSpjallSíðan mínPrófStaðreyndirSenda vini

Staðreyndir

Hjarta- og æðasjúkdómar

Sá sem reykir 20 sígarettur á dag þrefaldar hættuna á að fá hjarta- og æðasjúkdóma.

Þó að ekki séu reyktar nema 1-4 sígarettur á dag er hættan á að fá hjartasjúkdóma helmingi meiri en hjá þeim sem reykir ekki.

Hjarta- og æðasjúkdómar hljótast af því að það dregur úr eða tregða verður á aðstreymi blóðs og súrefnis. Reykingar, hár blóðþrýstingur og of mikið kólesteról eru þau atriði sem mest auka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Hjartakveisa

Hjartakveisa (angina pectoris) stafar af því að hjartavöðvinn fær of lítið súrefni um tíma. Hjartakveisa er algengari meðal reykingamanna en reyklausra og getur verið aðdragandi kransæðastíflu.

Kransæðastífla

Við kransæðastíflu stöðvast blóðrennslið svo lengi að hluti hjartavöðvans deyr úr súrefnisskorti. Súrefnisskorturinn getur stafað af blóðtappa eða að æðarnar eru of þröngar. Svæsin kransæðastífla getur verið banvæn. Hættan á kransæðastíflu eykst mjög ef menn reykja. Jafnvel litlar reykingar auka þessa hættu. Ekki eru til nein örugg neðri reykingamörk.

80% kvenna og 60% karla, sem fá kransæðastíflu fyrir 65 ára aldur, reykja að staðaldri.

Sá sem hættir að reykja án þess að hafa fengið kransæðastíflu er búinn að minnka hættuna á kransæðastíflu um helming aðeins einu ári eftir að hann hættir. Eftir það dregur smám saman úr hættunni. 15 árum eftir að hann sagði skilið við reykingarnar er hættan á kransæðastíflu sú sama og hjá manni sem hefur aldrei reykt.

Ef maður hættir að reykja eftir að hann hefur fengið kransæðastíflu hefur hann dregið úr hættunni á að fá nýja stíflu um helming fimm árum eftir að hann hætti. Til er fjöldi lyfja til að draga úr hættunni á nýrri kransæðastíflu en ekkert þeirra hefur meiri áhrif en það að hætta að reykja. Gagnsemi lyfjanna minnkar ef menn halda áfram að reykja eftir að þeir hafa fengið kransæðastíflu.

Sjá nánar um áhrif tóbaksnotkunar á hjarta og æðakerfi í bæklingi Hjartaverndar.