Um reyklaus.isSpjallSíðan mínPrófStaðreyndirSenda vini

Staðreyndir

Sjúkdómar í öndunarfærum

Í tóbaksreyk eru efni sem brjóta niður frumurnar í lungnablöðrunum og eyðileggja þar með sjálf lungun.

Sá sem reykir daglega verður smám saman að venjast morgunhósta og slími. Óhjákvæmilegt er að andardrátturinn þyngist við líkamsáreynslu og árangurinn á íþróttavellinum versnar.

Reykurinn eyðileggur bifhárin

Tóbaksreykinn skemmir bifhárin í öndunarveginum. Þessi hár gegna hlutverki hreingerningarkerfis. Kerfið flytur óhreinindaagnir úr loftinu upp úr lungum og öndunarvegi. Við reykingar lamast bifhárin. Þess vegna þjást reykingamenn oft af hósta, meiri slímmyndun, kvefi og öndunarfærasýkingum á borð við bráða berkjubólgu og lungnabólgu. Þegar fram í sækir eyðileggjast bifhárin alveg.

Í tóbaksreyknum eru einnig efni sem brjóta niður frumurnar í lungnablöðrunum og eyðileggja þar með lungun sjálf.

Sýkingar algengari

Sýkingar í efri og neðri hluta öndunarfæranna, t.d. hálsbólga, bráð berkjubólga og lungnabólga, eru tíðari meðal reykingamanna en þeirra sem reykja ekki. Börnum, sem þurfa mikið að anda að sér reyk, er sömuleiðis mun hættara við að fá slíka sjúkdóma og þau fá einnig eyrnabólgu oftar en önnur börn.

Asmi

Ef maður hefur asma og reykir versnar asminn smám saman og miklar líkur eru á að það endi með lungnaþembu (sjá hér á eftir). Ef þessi sami maður hættir að reykja dregur oftast nær úr asmaköstunum. Börn, sem alast upp á reykingaheimili, eiga frekar á hættu að fá asma.

Lungnaþemba

Lungnaþemba er þrálátur sjúkdómur sem lýsir sér með þungum andardrætti, hósta og slímmyndun. Lungun í fólki með lungnaþembu starfa ekki með eðlilegum afköstum en öndunarerfiðleikarnar eru mismiklir. Sjúklingar, sem eru illa haldnir af lungnaþembu, þurfa oft stöðuga súrefnisgjöf.

Meira en 90% lungnaþembusjúklinga reykja daglega eða hafa gert það. 15% þeirra sem reykja 20 sígarettur á dag og 25% þeirra sem reykja 40 sígarettur á dag munu fá lungnaþembu.

Lungnastarfsemi lungnaþembusjúklinga versnar stöðugt. Það eina sem getur komið í veg fyrir að ástandið versni er að hætta að reykja. Yfirleitt batnar andardráttur lungnaþembusjúklinga þegar þeir hætta að reykja.