Um reyklaus.isSpjallSíðan mínPrófStaðreyndirSenda vini

Staðreyndir

Óbeinar reykingar

Óbeinar reykingar eru það að anda að sér reyk sem er mengaður tóbaksreyk. Við óbeinar reykingar getur maður fengið í sig jafnmikið af heilsuspillandi efnum eins og ef maður hefði reykt margar sígarettur sjálfur. Óbeinar reykingar auka hættuna á sömu sjúkdómum og beinar reykingar valda.

Margir fá óþægindi af óbeinum reykingum. Algeng einkenni eru erting í augum, hósti, særindi eða þurrkur í  hálsi, höfuðverkur, herpingur fyrir brjóstinu og erfiður andardráttur.

Óbeinar reykingar auka hættuna á kransæðastíflu og lungnakrabba um 30%.

 

Börn og óbeinar reykingar

Óbeinar reykingar eru sérlega hættulegar litlum börnum. Tóbaksreykur veldur því að lungu þeirra starfa verr en ella og slímhúðin í öndunarfærunum verður viðkvæmari fyrir sýkingum. Barn, sem elst upp í reykmettuðu lofti innanhúss, fær þess vegna oftar eyrnabólgu og öndunarfærasýkingar, á borð við berkjubólgu og lungnabólgu, en barn sem elst upp í reyklausu lofti.

Börn foreldra, sem reykja, eru oftar með asma en önnur börn. Óbeinar reykingar gera líka asmatilfellin tíðari og alvarlegri hjá asmasjúklingunum en annars væri.

Langvinnar óbeinar reykingar auka líka hættuna á þrálátum öndunarfærasjúkdómum.

Meðganga og reykingar

Barn í móðurkviði verður fyrir óbeinum reykingum ef móðirin reykir eða aðrir í kringum hana. Fóstrið fær í sig sömu efni og móðirin.

Reykingar á meðgöngu draga úr aðstreymi súrefnis og næringarefna til fóstursins og þar með dregur úr vexti og þroska mikilvægra líffæra barnsins, t.d. heila, hjarta og lungna. Reykingar geta einnig leitt til erfiðleika á meðgöngu, t.d. fyrirburafæðingar og andvana fæðingar. Auk þess eykst hættan á vöggudauða verulega.

Ungbarn, sem verður fyrir óbeinum reykingum, á frekar á hættu að deyja vöggudauða burtséð frá því hvort móðirin reykti á meðgöngu eða ekki.

Mörg hættulegustu efnin í tóbaksreyknum eru í miklu magni bæði í reyknum sem menn sjúga gegnum sígarettuna (meginreyknum) og í reyknum sem liðast beint út í umhverfið frá sígarettunni (hliðarreyknum). Bruninn verður ekki við sama hitastig og þess vegna er mikill munur á samsetningu efnanna í meginreyk og hliðarreyk. Styrkur efnanna, sem mest spilla heilsunni, er meiri í hliðarreyknum en meginreyknum. Og það er hliðarreykurinn sem fólk andar einkum að sér við óbeinar reykingar.

Sjá bæklinginn:  Til foreldra um börn og óbeinar reykingar

B�kl_for_mynd_litil


Einnig er hægt að panta bæklinginn á vef Lýðheilsustöðvar