Um reyklaus.isSpjallSíðan mínPrófStaðreyndirSenda vini

Staðreyndir

Reykingar og tengsl

Reykurinn hefur öðlast þann sess í lífi margra reykingamanna að tengjast fjölmörgu öðru í lífinu. Þessi tengsl skipta miklu máli þegar menn ætla svo að hætta.

Þannig tengja margir reykingar því að slaka á. Þó að nikótín hafi í sjálfu sér meiri örvandi áhrif en slakandi þá fylgir þeirri tilfinningu að fullnægja nikótínþörfinni slíkur léttir að fjölmörgum finnst reykurinn slaka á. Þessi skyndiáhrif vega iðulega þyngra en heilsubótaráhrifin til lengri tíma af að hætta að reykja. Þegar reykingaþörfin hellist yfir menn finnst mönnum oft kostirnir við að reykja og ókostirnir við að hætta miklu meiri en 5 mínútum fyrr.

Tenging af þessu tagi milli reykinga og slökunar veldur því að hugsunin um reyk skýtur léttilega upp kollinum þegar eitthvað bjátar á og taugarnar þenjast. Auk þess hefur reykingafólk oft tamið sér ýmsa siði sem valda því að við sum verk eða athafnir þarf að reykja meira en önnur. Sumir eiga eftir að fá löngun til að reykja eftir matinn árum saman eftir að þeir hætta, aðrir eiga erfitt með að fara í veiðiferð án tóbaksins. Meðal margra hefur reykurinn þar að auki félagslegt hlutverk sem lesa má meira um á síðunni Félagsleg fíkn.

Umbun

Tengslin verða sérlega sterk ef tiltekin umbun er annars vegar. Þetta þýðir þá líka að tengslin slakna þegar maður tekur burt umbunina sem nikótínið felur í sér. Þetta gerist af sjálfu sér þegar fram líða stundir en það er líka hægt að flýta fyrir að „venja sig af þessu“. Þetta er það sem fólk gerir þegar það notar lyf til að draga úr áhrifum nikótínsins meðan það reykir, t.d. Zyban, eða þegar það grípur sogrör þegar það hefði annars fengið sér sígarettu. Fólk getur líka tekið upp nýja siði þegar gamlar reykingastundir renna upp og veitt sér umbun fyrir nýju siðina. Til dæmis geturðu veitt þér verðlaun þriðja hvern dag sem þú hefur farið í gönguferð síðdegis í staðinn fyrir að fá þér að reykja. Eða þú getur gert eitthvað sem er hollt og gott í sjálfu sér, t.d. að venja þig á að draga djúpt andann og teygja þig í hvert sinn sem þú finnur að taugarnar eru þandar.